Göngum í skólann og Norræna skólahlaupið

Ritað .

Nemendur Hamraskóla hlupu hið árlega Norræna skólahlaup í dag.  Þetta er skemmtilegt hlaup og  stóðu flestir sig mjög vel. Með hreyfingu stuðlum við að betri heilsu og vellíðan og var Norræna skólahlaupið upphafið að hreyfiviku í Hamraskóla. Á morgun þriðjudag ætlum við í Náttúrugöngu í tilefni að því að 16. september er Dagur íslenskrar náttúru.  Þá göngum við saman hring hér í Hamrahverfinu, njótum útiveru og hreyfingar um leið og við skoðum náttúruna í okkar nánasta umhverfi. Á miðvikudag og fimmtudag mun hver og einn bekkur gera eitthvað skemmtilegt tengt hreyfingu og á föstudag endum við hreyfivikuna í Gufunesbæ í skemmtilegum leikjum.

GÖNGUM Í SKÓLANN

Nú hefur verkefninu Göngum í skólann verði hleypt af stokkunum og sem fyrr verður lögð áhersla á að börn gangi eða hjóli til og frá skóla á öruggan hátt.

Markmið Göngum í skólann eru:

• Að hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ferðast með virkum og öruggum hætti í skólann.

• Að fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar.

• Að draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum.

Auk þess er reynt að stuðla að vitundarvakningu fyrir vistvænan ferðamáta og umhverfismálum og það hversu "gönguvænt" umhverfið er.

Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til þess að ganga/hjóla með börnum sínum öruggustu leiðina til og frá skóla þar sem þeir eru helstu fyrirmyndir barna sinna í umferðinni. Mikilvægt er að fylgja öllum umferðarreglum og kenna börnunum að ganga/hjóla í skólann með öruggum hætti.

Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vef þess www.gongumiskolann.is.

 

 

Umhverfisdagur 12. september

Ritað .

Í tilefni af umhverfisdegi í Hamraskóla voru rifjaðar upp helstu áherslur í umhverfisstefnu skólans í samveru á sal í morgun. Nemendur horfðu meðal annars á stutt myndbrot frá Sorpu um Trjáálfana sem eru að læra að flokka og endurnýta. Þegar samveru á sal lauk fóru allir út að týna rusl og voru allir mjög duglegir við það.